Viðskipti innlent

Gjaldeyriskaup höfðu engin áhrif á krónuna

Kaup Seðlabankans á gjaldeyri á millibankamarkaði sem hófust að nýju í gær höfðu engin sjáanleg áhrif á gengi krónunnar. Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að þetta sé í samræmi við það sem bankinn hafði að leiðarljósi, það er að segja, að umfang viðskiptanna yrði með þeim hætti að áhrif á gengið yrðu sem minnst.

„Þannig var gengi krónunnar nokkuð stöðugt gangvart helstu viðskiptamyntum, og í reynd var um að ræða lítilsháttar styrkingu krónunnar m.v. gengisvísitöluna. Kom það til af því að evran styrktist á móti Bandaríkjadollar, en evran er viðmiðunarmynt á millibankamarkaði með gjaldeyri hér á landi. Þannig stóð gengisvísitala krónunnar í 209.4 í lok dagsins í gær samanborið við 209,7 daginn áður," segir einnig í Morgunkorninu.

Þá er bent á að bankinn hafi ekki beitt sér á millibankamarkaði frá því í byrjun nóvember í fyrra og raunar ekki keypt gjaldeyri þar frá því í mars 2008. „Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins keypti bankinn samtals 1,5 m. evra af viðskiptavökunum þremur. Meginmarkmið þessara gjaldeyriskaupa er að styrkja gjaldeyrisforða bankans og breyta samsetningu hans. Er þannig verið að styrkja þann hluta forðans sem ekki er fenginn að láni en forðinn er að mestu leyti byggður upp á lántökum. Breyting á samsetningi forðans í þá átt að auka hreina gjaldeyriseign á móti lánsfé eykur þannig trúverðugleika."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×