Viðskipti erlent

Von á tilboði Actacvis í Ratiopharm í dag

Von er á tilboði Actavis í þýska samheitalyfjafyrirtækið Ratiopharm í dag að því er segir í frétt á Reuters um málið. Actavis keppir um kaupin á Ratiopharm við bandaríska lyfjarisann Pfizer og Teva sem er stærsta samheitalyfjafyrirtæki heimsins.

Forráðamenn Pfizer áttu fund með stjórn Ratiopharm fyrir helgina til að gera hosur sínar grænar fyrir stjórninni og kynna tilboð sitt í fyrirtækið. Tilboðið hljóðar upp á rúma 3 milljarða evra.

Í bréfi sem stjórn Ratiopharm sendi starfsfólki sínu eftir fundinn með Pfizer segir m.a. að bandaríski lyfjarisinn ætli að auka vöxt og viðgang Ratiopharm á næstu árum og gera fyrirtækið leiðandi á sviði samheitalyfja.

Eins og áður hefur komið fram styður Deutsche Bank við bakið á Actavis í kaupunum á Ratiopharm. Bankinn er aðallánadrottinn Actavis sem skuldar honum nokkuð yfir 4 milljarða evra. Samkvæmt Reuters er það ætlun Deutsche Bank að sameina Actavis og Ratiopharm og setja hið sameinða félaga síðan í söluferli.

Nokkrar vangaveltur eru um hvað verður af eignarhaldi Björgólfs Thors Björgólfssonar fari svo að áætlanir Deutsche Bank nái fram að ganga. Reuters segir að óljóst sé á þessari stundu hvort eignarhlutur Björgólfs Thors verðir „þynntur út" ef Actavis nær að kaupa Ratiopharm.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×