Íslenski boltinn

Minni pressa á Valsliðinu núna

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Sigurbjörn í leiknum gegn KR.
Sigurbjörn í leiknum gegn KR. Fréttablaðið/Vilhelm

"Þetta er maður alinn upp við, þessa nágrannaslagi stórveldanna í Reykjavík, sagan og umgjörðin," sagði Sigurbjörn Hreiðarsson um ástæðu þess af hverju það er svona sérstakt að vinna KR. Hann er leikmaður 6. umferðar Pepsi-deildarinnar að mati Fréttablaðsins og Vísis.

Sigurbjörn átti góðan leik í 2-1 sigrinum í Vesturbænum sem skilur KR enn eftir án sigurs í deildinni. Valsliðið er í öðru til fimmta sæti með ellefu stig eftir sex leiki.

Sigurbjörn segir að liðið finni ekki fyrir neinni pressu í ár. "Við settum þetta þannig upp að við erum ekkert að setja pressu á okkur, við erum bara að móta gott lið og það gengur vel. Í byrjun móts er þetta eins og að grafa holu, maður lítur ekkert upp fyrr en maður nálgast takmarkið."

Sigurbjörn hrósar Gunnlaugi Jónssyni þjálfara sem stýrir nú Val á sínu fyrsta tímabili. "Hann hefur fengið ferskleika inn í hópinn, hann heldur mönnum á tánum. Það er meira frjálsræði hjá honum en góður agi líka. Hópurinn var brotinn í haust en hann sá það og hefur náð að laga það. Leikmenn leggja sig alla fram, sem er skilyrði til að geta eitthvað," segir Sigurbjörn.

Sigurbjörn verður samningslaus í haust og stefnir á þjálfun. Hann segir óvíst hvað hann gerir. "En ég á nokkur ár eftir í boltanum, ég get spilað áfram og ástandið á mér hefur alltaf verið gott," sagði Sigurbjörn áður en talið barst að undirbúningstímabilinu þar sem hann var meiddur.

"Ég hefði viljað spila meira, Pepsi-deildin er mikið breytt frá gömlu tímunum þar sem þú gast mætt með hálfum hug í fyrstu fimm umferðirnar og spilað þig í gang. Menn voru oft að spila handbolta fram í maí og komust svo í fótboltagír í fyrstu leikjum mótsins. Þú kæmist aldrei upp með það í dag. Sumir voru kannski í landsliðinu í þremur greinum og mættu svo bara brattir í Íslandsmótið," segir Sigurbjörn.

Hann segir menn einnig almennt í betra líkamlegu ástandi nú en á árunum þegar hann steig sín fyrstu skref í meistaraflokki um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

"Þú sérð ekki lengur nokkurn mann sem er bara í rólegheitunum. Ef þú ert ekki í standi sjá það allir og þú ert bara kallaður feitur eða lendir illa í því. En þegar ég var að byrja mátti auðvitað bæði spila legghlífalaus og markmaður mátti taka með höndum," rifjaði Sigurbjörn upp.

"Það hefur gríðarlega mikið breyst en menn eru auðvitað að fá borgað núna. Ef þú biður um þriggja daga frí í mars veit þjálfarinn varla hvert hann ætlar," segir hann kíminn.

"Pressan er allsstaðar, frá öllum. Menn byrja að hugsa um að komast í Evrópukeppnir, áhorfendur hafa margfaldast, umfjöllum og umgjörð eru miklu betri og aðstæður leikmanna líka. Þetta leiðir allt af sér betri fótbolta," segir Sigurbjörn Hreiðarsson.

Lið 6. umferðar (3-5-2)

Markvörður:

Fjalar Þorgeirsson (Fylkir)

Varnarmenn:

Daníel Laxdal (Stjarnan)

Atli Sveinn Þórarinsson (Valur)

Jón Orri Ólafsson (Fram)

Miðvallarleikmenn:

Halldór Orri Björnsson (Stjarnan)

Guðmundur Kristjánsson (Breiðablik)

Jón Guðni Fjóluson (Fram)

Sigurbjörn Hreiðarsson (Valur)

Steinþór Freyr Þorsteinsson (Stjarnan)

Sóknarmenn:

Tryggvi Guðmundsson (ÍBV)

Atli Viðar Björnsson (FH)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×