Innlent

Skíðasvæðið í Bláfjöllum ekki opnað í dag

Úr safni. Frá Bláfjöllum.
Úr safni. Frá Bláfjöllum.
Hvassviðri kemur í veg fyrir að hægt sé að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum í dag, eins og vonast hafði verið til.

„Hér er brjálað rok," sagði Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæðanna, staddur í Bláfjöllum, á tíunda tímanum, og sagði ljóst að ekkert yrði opnað í dag. Hann segir að veðurútlit fyrir morgundaginn sé mun betra og gerir sér vonir um það verði fyrsti opnunardagur vetrarins. Enn vantar þó talsvert af snjó til að unnt sé að opna allt svæðið.

Nokkrar brekkur eru tilbúnar, að sögn Magnúsar; svokölluð A-leið, eða norðurleið um gömlu öxlina, önnur byrjendabrekkan við Bláfjallaskála er tilbúin og einnig diskalyftan í Suðurgili.

Frá skíðasvæðum á Norðurlandi berast skárri fréttir. Í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar voru brautir troðnar í alla nótt og þar sagt úrvalsfæri. Veðrið lofi góðu, bjart og logn og fimm stiga frost.

Í Tindastóli er sagður nægur snjór og gott færi og þriggja stiga frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×