Lífið

Spila íslenskt víkingarokk

Víkingarokkararnir eru að ljúka upptökum á sinni fyrstu plötu.
Víkingarokkararnir eru að ljúka upptökum á sinni fyrstu plötu. Mynd/Stefán
Víkingarokksveitin Skálmöld er að taka upp sína fyrstu plötu. Tveir meðlimir sveitarinnar eru einnig í Ljótu hálfvitunum, eða bræðurnir Snæbjörn og Baldur Ragnarssynir.

„Þetta er víkingametall. Yrkis­efnin eru heiðna trúin og víkingarnir, ferðalög yfir fjöll, bardagar við forynjur og ýmislegt fleira," segir forsprakkinn Snæbjörn. „Við leggjum mikið upp úr bragfræði og höfum verið að fylgjast með íslensku rímnahefðunum."

Snæbjörn var í þungarokkssveit þegar hann var yngri og langaði að upplifa drauminn á nýjan leik. „Ég settist niður eftir miklar pælingar og sendi póst á menn sem ég vildi hafa með mér í þessu. Þetta eru menn sem eru komnir yfir þrítugt í öllum tilvikum, nema bróðir minn. Þetta eru þroskaðir einstaklingar og þetta er allt gert af miklum heilindum."

Skálmöld syngur á íslensku sem er nýlunda þegar svona hljómsveitir eru annars vegar. „Það er algjörlega furðulegt og fullkomlega skammarlegt. Með þetta ofboðslega tungumál og vísnahefðir," segir Snæbjörn. „Það eru milljón bönd í heiminum sem spila svona tónlist og finnst þetta geðveikt kúl en hérna hefur enginn verið að rækta þetta, sem er stórundarlegt."

Fyrsta plata hljómsveitarinnar kemur út í sumar. Fram undan hjá Skálmöld eru tónleikar á þungarokkshátíðinni Eistnaflugi í Neskaupstað í júlí.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.