Viðskipti erlent

Gengi dollarans heldur áfram að veikjast

Gengi Bandaríkjadollars lækkaði í gær gagnvart öllum helstu myntum og í kjölfarið fór dollarinn niður fyrir 113 krónur. Dollarinn kostar nú þegar þetta er ritað 112,51 kr. og hefur ekki kostað svo lítið síðan í febrúar á síðasta ári.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar hefur nú styrkst um 4% frá því í septemberbyrjun og um 12% frá júníbyrjun. Til upprifjunar kostaði dollarinn fyrir hrun 82 krónur en dýrastur var hann fyrir Íslendinga í árslok 2008 þegar reiða þurfti fram 147 kr. til að eignast einn dollara.

Dollarinn hefur verið að veikjast gagnvart evru undanfarið og kostar evran nú þegar þetta er ritað 1,372 dollara sem er hæsta gildi sem evru/dollar krossinn hefur tekið síðan í mars síðastliðnum.

Verulega hefur þó hægt á hækkunarferli evru/dollars krossins undanfarið en ekki er talið ólíklegt að evran muni innan skamms kosta 1,4 dollara. Það sem veikir dollarinn er sem fyrr áhyggjur af stöðu efnahagsmála vestanhafs og hægur bati bandaríska hagkerfisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×