Enski boltinn

Cole: Næsti stjóri verður að hafa trú á mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joe Cole á blaðamannafundinum í gær.
Joe Cole á blaðamannafundinum í gær. Nordic Photos / Getty Images

Joe Cole segir að hann hafi ekki fengið þann stuðning sem hann hafi þurft á að halda hjá Chelsea á nýliðnu tímabili.

Cole mun fara frá Chelsea í sumar þegar að samningur hans við félagið rennur út. Samningaviðræður hans við forráðamenn félagsins fóru út um þúfur og því var ákveðið að bjóða honum ekki nýjan samning.

„Það sem ég þarf á að halda nú er knattspyrnustjóri sem hefur trú á mér," sagði Cole í gær. Hann minntist ekki á Carlo Ancelotti, núverandi stjóra Chelsea, sérstaklega en sagði að sér hefði liðið vel undir stjórn Jose Mourinho.

„Þegar Jose var stjóri spilaði ég meira en Robben, Duff, Wright-Phillips, Mutu, Malouda og Guðjohnsen. Jose hafði mikla trú á mér og ég spilaði í öllum mikilvægu leikjunum."

„Það var erfitt fyrir mig að byrja aftur á þessu tímabili eftir meiðslin þar sem ég spilaði mjög óreglulega. Mér fannst ég aftur ná mínu besta fram þegar sumir strákanna í liðinu fóru í janúar til að spila í Afríkukeppni landsliða. En þegar þeir komu til baka breytti stjórinn öllu í fyrra horf."

„Maður þarf að spila reglulega eftir meiðsli og það fékk ég ekki að gera. Ég fékk kannski tíu eða tuttugu mínútur í leik og ég hugsaði með mér að ég yrði að gera eitthvað."

„Það kom kannski einhverjum á óvart að ég væri að elta bolta niður í hornin, sérstaklega þegar við vorum búnir að vinna deildina. En ég varð að gera eitthvað og sýna Hr. Capello að ég væri leikfær."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×