Innlent

Stefnir í nýjan meirihluta í Fjarðabyggð

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur í Fjarðabyggð hafa hafið formlegar viðræður um meirihlutasamstarf í þessu fjölmennasta sveitarfélagi Austurlands. Fulltrúar flokkanna hófu þreifingar um samstarf þegar í gærmorgun og er ákveðið að þeir fundi í dag, að sögn Jens Garðars Helgasonar, oddvita D-listans.

Sjálfstæðismenn hafa í tólf ára sögu Fjarðabyggðar ætíð verið í minnihluta en unnu hins vegar stórsigur í kosningunum nú, fengu 41 prósent atkvæða og 4 bæjarfulltrúa, bættu við sig einum á kostnað Fjarðalistans, sem frá upphafi hefur verið ráðandi afl sveitarfélagsins.

Fjarðalistinn hlaut nú þrjá fulltrúa en framsóknarmenn héldu tveimur, en þeir hafa staðið saman að meirihluta undanfarin átta ár. Ráðamenn Fjarðalistans ákváðu hins í ljósi fylgistaps nú að draga sig í hlé þar til séð verður hvort hinum tveimur flokkunum takist að mynda meirihluta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×