Fótbolti

Fyrrum leikmaður Barcelona: Van Gaal er eins og Hitler

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis Van Gaal, þjálfari Bayern Munchen.
Louis Van Gaal, þjálfari Bayern Munchen. Mynd/AFP
Louis Van Gaal, þjálfari Bayern Munchen, er ekki fyrir alla þrátt fyrir að þessi frábæri þjálfari hafi náð einstökum árangri á sínum þjálfaraferli. Einn af þeim sem á óuppgerðar sakir við hollenska þjálfarann er Brasilíumaðurinn Giovanni sem spilaði fyrir hann hjá Barcelona á árunum 1997 til 1999.

Giovanni var út í kuldanum hjá Louis Van Gaal og fór í kjölfarið yfir til gríska liðsins Olympiacos þar sem hann spilaði næstu sex ár við góðan orðstír. Giovanni er enn að spila í heimalandinu þrátt fyrir að vera orðin 38 ára gamall en hann spilar sem framherji eða sókndjarfur miðjumaður.

„Van Gaal er eins og Hitler fyrir brasilíska fótboltamenn. Hann er hrokafullur og leiðinlegur. Hann gat ekki hugsað sér að hafa Brasilíumann í liðinu og sparkaði mér út. Hann átti líka í deilum við Rivaldo og Sonny Anderson. Hann sagði alltaf að við æfðum ekki nægilega vel en það er bara eitthvað að honum," sagði Giovanni við brasilíska blaðið Folha de Sao Paolo.

Giovanni hélt með Inter í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og óskaði Bayern-liðinu alls hins versta í leiknum. „Ef leikurinn hefði farið eins og ég vonaðist til þá hefði Inter unnið 15-0 og Lucio skoraði fimm mörk," sagði Giovanni.

„Þessi karl er bara ruglaður en sem betur fer er ég þessi rólega týpa því annars hefði ég barið hann. Hann hefur enga tilfinningu fyrir fótbolta og veit ekkert," sagði Giovanni greinilega enn sár þótt að liðinn sé heill áratugur síðan að hann lenti í Louis Van Gaal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×