Skoðun

Alþjóðadagur um sykursýki

Miklar framfarir hafa verið í meðferð við sykursýki undanfarna áratugi og þeir sem greinast með sykursýki í dag hafa mun meiri líkur á að lifa góðu lífi en þeir sem greindust um miðja síðustu öld.

Á móti kemur að tíðni sykursýki hefur aukist mikið undanfarin ár, svo mikið að Sameinuðu þjóðirnar ákváðu árið 2006 að taka frá einn dag á ári og tileinka hann sykursýki. Ályktun SÞ leggur þær skyldur á þjóðir heims að sameina krafta sína og upplýsa almenning um eina mestu heilbrigðisógn nútímans.

Sykursýki er skipt upp í tvo flokka, tegund 1 og 2. Flestir með tegund 1 greinast þegar þeir eru yngri en 20 ára og fljótlega eftir greiningu hættir brisið að framleiða insúlín, því verður fólk háð daglegum skömmtum af insúlíni. Fólk með tegund 2 greinist yfirleitt eldra og er yfirleitt með skerta starfsemi í brisinu. Mismunandi er hvort fólk með tegund 2 þurfi að gefa sér insúlín daglega. Meðferð við báðum tegundum byggist á hollu mataræði, reglulegri hreyfingu og lyfjagjöf. Þeir sem fylgja þessum lífsgildum hafa alla möguleika á að lifa heilbrigðu lífi eins og aðrir.

Aukin þjóðfélagsvitund um sykursýki skiptir miklu máli fyrir samfélagið í heild. Bæði til að koma í veg fyrir fáfræði sem getur leitt til ranghugmynda um sykursýki og einnig til að fólk geti brugðist rétt við ef einhver nákominn fær einkenni sykursýki. Rétt viðbrögð byggjast á því að fólk þekki einkennin sem helst eru: Þorsti, tíð þvaglát, þreyta, lystarleysi, þyngdartap. Einkenni vegna tegundar 1 koma fram á nokkrum vikum en þróun einkenna hjá tegund 2 á sér yfirleitt lengri aðdraganda, jafnvel nokkur ár.

Ég hvet alla til að taka frá nokkrar mínútur og fræðast um einkenni og meðferð við sykursýki. Það er okkur öllum í hag.

Nú stendur yfir átak í tengslum við Alþjóðadaginn 14. nóvember og er hægt að kaupa Bláa hringinn, sem er alþjóðlegt tákn sykursýki, í flestum apótekum til styrktar Samtökum sykursjúkra.




Skoðun

Sjá meira


×