Viðskipti erlent

Tony Fernandes segist vera með tilboð í West Ham

Samkvæmt frétt á Sky Sport hefur Tony Fernandes, eigandi AsiaAir, ekki gefið upp á bátinn að eignast ráðandi hlut í enska úrvalsdeildarliðinu West Ham. Tony segist vera að ganga frá samningi við CB Holding sem er að mestu í eigu Straums.

Áður hefur komið fram í breskum fjölmiðlum að Tony Fernandes, fjárfestir frá Malasíu, hefði gefið kaupin á West Ham upp á bátinn þar sem hann ætlaði að einbeita sér að því að koma Lotus liðinu áfram í Formúlu 1 kappakstrinum. Fernandes festi kaup á Lotus liðinu á síðasta ári.

Samkvæmt fréttinni á Sky Sport vonast Fernandes til þess að geta stungið West Ham undan þeim David Gold og David Sullivan sem gert hafa 50 milljón punda tilboð í 50% eignarhlut í West Ham.

Breska blaðið The Sun hefur eftir Fernandes að von bráðar muni West Ham liðið fá eigenda sem getur breytt stöðu þess og ber umhyggju fyrir liðinu. Áður hefur komið fram að Fernandes er ákafur stuðningsmaður West Ham.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×