Handbolti

HK færði FH sitt fyrsta tap í vetur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur Guðmundsson fann sig engan veginn í dag.
Ólafur Guðmundsson fann sig engan veginn í dag.

Markvörðurinn Björn Ingi Friðþjófsson og skyttan Ólafur Bjarki Ragnarsson voru mennirnir á bak við magnaðan sigur HK á FH í N1-deild karla í dag. Björn Ingi varði eins og berserkur allan leikinn og HK vann, 35-32.

Þetta var fyrsta tap FH í deildinni en HK heldur áfram að koma á óvart og er nú jafnt að stigum við FH.

HK var með frumkvæðið nánast allan leikinn. FH-ingar voru ekki líkir sjálfum sér, daufir, spiluðu lélega vörn og virtust halda að hlutirnir kæmu af sjálfu sér.

Það kann aldrei góðri lukku að stýra en það verður samt ekkert tekið af HK. Þeir börðust grimmmilega, voru klókir og áttu svör við flestu sem FH-ingar buðu upp á.

Það var þó aðallega markvarsla Björns Inga sem skildi á milli en hann varði hreint ótrúlega að þessu sinni eða 25 skot.

FH-ingar tóku góðan dauðakipp á lokamínútunum og náðu muninum niður í tvö mörk en það var of lítið og of seint.

Ólafur Bjarki Ragnarsson átti magnaðan leik fyrir HK og skoraði 12 mörk. Bjarkí Már Elísson var einnig öflugur með 8 mörk. Atli Ævari Ingólfsson skoraði 7.

Hjá FH var Ásbjörn Friðriksson með 9 mörk og Logi Geirsson skoraði 6.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×