Viðskipti erlent

Candy bræðurnir selja þakíbúð fyrir 36 milljarða

Candy bræðurnir bresku, fyrrum viðskiptafélagar Kaupþings, hafa selt þakíbúð í Mónakó fyrir rétt tæp 200 milljón pund eða um 36 milljarða kr. Á vefsíðunni epn.dk segir að um metverð sé að ræða í íbúðasölu.

Þakíbúðin gengur undir nafninu Belle Epoque og er rúmlega 1.600 fm að stærð á tveimur hæðum en lofthæðin í henni er tvöföld á við venjulegar íbúðir. Í henni má m.a. finna sundlaug, öryggisherbergi, flatskjái innbyggða í alla veggi, skotheldar rúður og öryggiskerfi sem slær út það sem bandaríska sendiráðið hefur í landinu.

Það mun vera tæplega fimmtugur grískur milljarðamæringur sem keypti íbúðina. Ekki er vitað hvort Grikkinn sé kunnugur sögu Belle Epoque en dularfullt andlát þar árið 1999 var rannsakað sem morð. Síðasti eigandi hennar, lýbíski fjárfestirinn Edmond Safra lést eftir eldsvoða í henni og seldi ekkja hans þá Candy bræðrunum íbúðina fyrir 10 milljónir punda eða rúmlega 1,8 milljarð kr.

Candy bræðurnir, Christian og Nick, voru í hópi stærri viðskiptafélaga Kaupþings en bankinn fjármagnaði fasteignaverkefni bræðranna bæði í London og í Beverly Hills í Hollywood. Kaupþing tapaði miklum fjárhæðum á þessum viðskiptum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×