Enski boltinn

Torres pirraður: Liverpool verður að kaupa heimsklassaleikmenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres, framherji Liverpool.
Fernando Torres, framherji Liverpool. Mynd/AFP

Fernando Torres, framherji Liverpool, hefur skorað á ameríska eigendur félagsins að bæta heimsklassamönnum við leikmannahópinn en gengi Liverpool hefur verið hörmulegt í vetur. Torres verður ekkert með næstu sex vikurnar vegna meiðsla á hné.

„Það er bara komið að eigendunum. Þeir verða bara að kaupa hingað leikmenn svo að svona hlutir gerist ekki aftur," sagði Torres við enska fjölmiðla í gær.

„Ef við berum okkur saman við Manchester United og Chelsea þá vantar mikið upp á hjá okkur. Við þurfum að fá fleiri heimsklassa leikmenn til liðsins og við megum jafnframt ekki láta okkar bestu menn fara," sagði Torres.

„Þetta er mjög pirrandi. Við urðum í öðru sæti í fyrra og þetta tímabil hefði getað orðið okkar. Manchester United seldi bæði Carlos Tevez og Cristiano Ronaldo og Chelsea styrkti sig ekki. Okkur tókst ekki að nýta það," sagði Torres.

„Við stefndum ekki á að vinna Evrópudeildina í byrjun tímabilsins en það er orðið markmiðið núna. Við verðum bara að vinna Evrópudeildina því allt annað yrði hræðilegt. Ef við vinnum ekki hana þá er þetta búið að vera mjög mjög mjög slæmt tímabil í Evrópu," sagði harðorður Fernando Torres.

Auk þess að missa Torres í svona langan tíma verða þeir Steven Gerrard og Yossi Benayoun einnig frá næstu vikurnar eftir að þeir þrír meiddust allir í tapleiknum á móti Reading í enska bikarnum á miðvikudagskvöldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×