Lífið

MTV líkir Inception við Sigur Rós

Leonardo DiCaprio brýst inn í drauma fólks í myndinni Inception.
Leonardo DiCaprio brýst inn í drauma fólks í myndinni Inception.

Gagnrýnandi MTV-tónlistarstöðvarinnar í Bandaríkjunum skrifar í dómi sínum um kvikmyndina Inception á vefsíðunni mtv.com að helst megi líkja stemmningunni í myndinni við tónlist Sigur Rósar.

Gagnrýnandinn, Kyle Anderson, á þarna aðallega við tónlist kvikmyndatónskáldsins Hans Zimmer sem spilar stóra rullu í myndinni. Engin popplög komast að í myndinni eins og venjan er heldur fær Zimmer að njóta sín til hins ýtrasta. Segir Anderson að þess vegna sé best að hita sig upp fyrir Inception eða melta hana eftir áhorf með því að skella plötunni Ágætis byrjun með Sigur Rós á fóninn.

Inception er nýjasta mynd leikstjórans Christopher Nolan, sem síðast gerði risamyndina Batman Begins. Leonardo DiCaprio leikur aðalhlutverkið. Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum um helgina og gekk vonum framar, fór beint á toppinn. Hún hrifsaði toppsætið af teiknimyndinni Despicable Me með því að hala inn rúmar 60 milljónir dollara, eða yfir sjö milljarða króna. Ævintýramyndin The Sorcerer's Apprentice fór beint í þriðja sætið.

Inception, sem verður frumsýnd hérlendis á miðvikudag, er aðsóknarmesta opnunarmynd DiCaprio og hefur henni verið spáð góðu gengi á næstu Óskarshátíð. Í myndinni leikur hann leiðtoga hóps sem brýst inn í drauma fólks.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.