Lífið

Universal í Evrópu með Boðbera í sigtinu

Íslenska kvikmyndin Boðbera vekur áhuga erlendra dreifingaraðila, þar á meðal kvikmyndarisans Universal.
Íslenska kvikmyndin Boðbera vekur áhuga erlendra dreifingaraðila, þar á meðal kvikmyndarisans Universal.
„Okkur kom þetta nú svolítið á óvart, enda við fyrst og fremst að einbeita okkur að því að koma myndinni í íslensk bíóhús," segir Hákon Einarsson, framleiðandi íslensku myndarinnar Boðbera.

Erlendir dreifingaraðilar hafa sýnt kvikmyndinni mikinn áhuga, þar á meðal Universal kvikmyndadreifingaraðilinn í Evrópu. Þetta staðfestir Úlfar Helgason hjá Sambíóunum, sem sér um dreifingu myndarinnar hér á landi. „Ég fékk póst frá þeim sama dag og ég sá sjálfur sýnishornið úr myndinni. Þeir höfðu séð það og það vakti greinilega forvitni þeirra og vildu þeir fá að vita meira um myndina," segir Úlfar, en málin eru ennþá á viðræðustigi.

„Þetta byrjaði allt saman þegar við settum enskan texta á sýnishorn myndarinnar á netinu. Hjálmar, leikstjóri Boðbera, hefur búið í Tékklandi og setti enskan texta fyrir vini og kunningja þar," segir Hákon en í kjölfarið fóru þeim að berast fyrirspurnir að utan og eru nú í viðræðum við að minnsta kosti þrjá erlenda dreifingaraðila. Spurður hvað sé að kveikja áhuga útlendinga á myndinni segist Hákon hafa heyrt að myndin teljist mjög frumleg og að hún hafi eitthvað nýtt fram að færa á markaðinn. „Þessir menn úti vita hvað virkar hjá þeim og eru náttúrulega alltaf með allar klær úti. Með nef fyrir því hvað sé að ganga í þessum bransa núna. Að mínu mati er killer-blanda í myndinni, pólitík, trúmál og biblían," segir Hákon og bætir við að heildarútlitið á myndinni hafi vakið athygli sem nýtt og ferskt.

„Við erum í skýjunum með þessa athygli án þess að vera búnir að gera neitt í þessum málum sjálfir, þó svo að erlend dreifing hafi alltaf verið á dagskránni. Við ætluðum bara fyrst að einbeita okkur að Íslandi," segir Hákon.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.