Körfubolti

Ingi Þór: Ótrúlegur varnarleikur í fjórða leikhluta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/Daníel
Mynd/Daníel

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var sigurreifur eftir leikinn gegn KR í dag en hann er búinn að vinna tvo leiki í röð á sínum gamla heimavelli. Honum finnst það augljóslega ekkert sérstaklega leiðinlegt.

„Berkins gerði frábæra hluti hér í dag og setti niður risakörfur," sagði Ingi Þór um Martins Berkins sem var einn fárra manna á vellinum í dag sem hitti almennilega.

Ingi sagði þó að varnarleikurinn undir lokin hefði unnið leikinn fyrir hans menn.

„Varnarleikurinn í fjórða leikhluta var „outstanding". Við höldum þeim í einni körfu utan af velli. Aðeins einni körfu ef mig minnir rétt," sagði Ingi stoltur.

Leikurinn í dag var ekki fagur og minnti á köflum meira á leðjuslag en körfubolta. Stigaskorið í lokaleikhlutanum var síðan fáranlega lítið.

„Við vissum að þetta yrði bara baráttuleikur eins og þeir eiga að vera í úrslitakeppninni," sagði Ingi sem var geysilega ánægður með stuðninginn sem Snæfell fékk í leiknum.

„Það var meiri stemning hér í dag en í síðasta heimaleik. Algjörlega frábær stuðningur sem við fengum. Ég skora á alla Hólmara að mæta á leikinn á mánudag og hvetja okkur til dáða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×