Lífið

Skorar á þjófa að skila barnamyndum

Hrefna skorar á þjófana að skila kortinu úr myndavélinni sem þeir stálu.
Hrefna skorar á þjófana að skila kortinu úr myndavélinni sem þeir stálu. fréttablaðið/Valli

„Ég er búin að halda í vonina að löggan finni eitthvað, en það hefur ekki gerst,“ segir leikkonan Hrefna Hallgrímsdóttir, Skrítla úr Skoppu og Skrítlu.

Brotist var inn í fjölskyldubílinn við heimili Hrefnu í Kópavogi á mánudaginn í síðustu viku. Á meðal þess sem var stolið var myndavél sem geymir myndir af síðasta hálfa ári í lífi fjölskyldunnar.

„Við vorum að koma úr ferðalagi kvöldið áður og héldum að við hefðum tekið allt úr bílnum. Myndavélin var í hólfi á milli sætanna. Ótrúlega leiðinlegt,“ segir Hrefna. „Ég er dugleg við að setja myndir inn í tölvuna mína, en svo er hún full af vinnu – ég hef ekki getað tæmt myndavélina.“

Hrefna segir að hún myndi skipta á öllum aukahlutunum sem fylgja myndavélinni fyrir minniskortið sem geymir myndirnar – jafnvel borga fyrir það. Hún hvetur þjófana til að koma kortinu til sín. „Þeir mega stinga kortinu inn um lúguna hjá mér,“ segir hún. „Ég væri ofboðslega þakklát og glöð. Ég skora á þá, ef þeir hafa smá samúð í hjartanu sínu. Þetta eru börnin okkar og lífið síðasta hálfa árið.“

Þjófarnir brutust inn í fleiri bíla í götunni sem Hrefna og fjölskylda býr í. Þeir voru engin snyrtimenni þar sem þeir slettu skyri á mælaborðið í bíl fjölskyldunnar. „Skyrið gerði útslagið,“ segir hún. „Það er allt inni í miðstöðinni og það þarf að taka allan frontinn af bílnum til að hreinsa það.“

- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×