Viðskipti innlent

Fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair lokið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair er lokið. Mynd/ Vilhelm.
Fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair er lokið. Mynd/ Vilhelm.
Icelandair Group hf. tilkynnti 14. og 15. júní 2010 að Framtakssjóður Íslands (FSÍ) og Lífeyrissjóður Verzlunarmanna (LV) hefðu gert bindandi samkomulag við félagið þess efnis að sjóðirnir myndu fjárfesta í Icelandair Group hf. fyrir 4 milljarða króna á genginu 2,5. Í samkomulaginu skuldbatt FSÍ sig til að leggja fram 3 milljarða króna og eignast þar með 1,2 milljarða nýrra hluta í félaginu. LV skuldbatt sig til að fjárfesta í félaginu fyrir 1 milljarð króna og eignast þar með 400 milljónir nýrra hluta í félaginu.

Samningarnir voru gerðir með eftirfarandi fyrirvörum um jákvæða niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á Icelandair Group hf, að Fjármálaeftirlitið (FME) myndi veita Framtakssjóðnum undanþágu frá yfirtökuskyldu á félaginu og að Icelandair Group hf. myndi safna að minnsta kosti einum milljarði króna að markaðsvirði af nýju hlutafé frá öðrum fagfjárfestum.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að búið sé að uppfylla þessa fyrirvara og fjárfestar hafi í heild skráð sig fyrir 5,5 milljörðum króna að markaðsvirði í nýju hlutafé sem jafngildir 2,2 milljörðum nýrra hluta í Icelandair Group hf.

Samkomulagið miðar við að stærstu lánveitendur Icelandair Group breyti skuldum að fjárhæð 3,6 milljarðar króna í hlutafé miðað við gengið 5, þannig að þeir munu skrá sig fyrir 720 milljón nýjum hlutum. Heildarhlutafjárhækkun mun þannig nema 2,92 milljörðum nýrra hluta að nafnvirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×