Viðskipti erlent

Heimsmarkaðsverð á gulli í 1.300 dollara á únsuna

Heimsmarkaðsverð á gulli sló enn eitt metið í dag þegar það fór í 1.300 dollara á únsuna. Verð á silfri fylgir í kjölfarið og hefur ekki verið hærra í 30 ár en það hefur hækkað um 30% á árinu.

Þetta kemur fram í frétt á Reuters. Þar segir að fjárfestar hafi hellt fjármagni inn á gullmarkaðinn í dag en ástæðan er sem fyrr áhyggjur af því að efnahagur heimsins sé ekki í eins miklum bata og spáð hefur verið. Einnig spila inn í áhyggjur af því að verðbólga muni vaxa það sem af er árinu.

Sérfræðingar reikna með að gullverðið haldi áfram að hækka og fari í 1.315 til 1.325 dollara á únsuna í náinni framtíð. Þa spá sumir því að gullverðið fari yfir 1.400 dollara á næsta ári.

Verð á silfri fór í 21,61 dollar á únsuna í dag og hefur ekki verið hærra í 30 ár. Sumir fjárfestar segja að það sé raunar betra að fjárfest í þeim málmi en gulli þar sem helmingur af silfurframleiðslu heimsins er notaður í iðnaði en aðeins 10% af gullframleiðslunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×