Viðskipti innlent

AGS: Hagvöxtur 3% á næsta ári

Sigríður Mogensen skrifar
Mark Flanagan, (t.h) yfirmaður sendinefndar AGS gagnvart Íslandi ásamt Franek Rozwadowski.
Mark Flanagan, (t.h) yfirmaður sendinefndar AGS gagnvart Íslandi ásamt Franek Rozwadowski.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 3% hagvexti á Íslandi á næsta ári og telur að verðbólga haldi áfram að hjaðna. Spáir sjóðurinn því að tólf mánaða verðbólga verði komin niður fyrir 5% í lok næsta árs. Þetta kemur fram í skýrslu sendinefndar sjóðsins í kjölfar þriðju endurskoðunar á efnahagsáætlun Íslands.

Í skýrslunni kemur fram að takmarkanir á fjárfestingu í orkufrekum iðnaði, áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli í vor og dómur Hæstaréttar um gengistryggð lán geti hægt á efnahagsbatanum. Dómur Hæstaréttar tefji endurskipulagningu á skuldum heimilanna og geti einnig dregið úr erlendri fjárfestingu hér á landi.

Skuldir viðráðanlegar

Talið er að skuldir hins opinbera verði komnar niður í 76% af landsframleiðslu árið 2015. Þá er því spáð að erlendar skuldir Íslands verði 280% í lok þessa árs, og verði komnar niður í 190% af landsframleiðslu fyrir árið 2015. Í skýrslu sjóðsins segir að stór hluti af erlendum skuldum landsins tilheyri alþjóðlegum fyrirtækjum með höfuðstöðvar á Íslandi og þau fyrirtæki eigi erlendar eignir og hafi tekjur í erlendri mynt til að standa undir skuldum sínum.

Þá segir að erlendar eignir Íslands, þar með talið eignir lífeyrissjóðanna, styrki stöðu landsins. Erlendar skuldir Íslands eru þannig viðráðanlegar og erlend staða landsins ekki úr takti við stöðuna í þeim löndum sem við berum okkur saman við, að mati sendinefndar AGS.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×