Viðskipti erlent

Skuldasúpa Grikklands mun verri en talið var

Samkvæmt tölum sem Eurostat, hagdeild ESB, birti í morgun er skuldasúpa Grikklands mun verri en áður var talið. Hve mikið verri hún er kemur sérfræðingum samt ekki á óvart.

Eurostat segir að fjárlagahalli Grikklands á síðasta ári hafi numið 15,4% af landsframleiðslu en ekki 13,6% eins og stjórnvöld í Grikklandi höfðu lýst yfir. Þar með er fjárlagahallinn sá mesti meðal evruríkja en næst á eftir kemur Írland með halla upp á 14,4% af landsframleiðslu.

Þá kemur fram í tölum Eurostat að erlendar skuldir Grikklands nema nú tæpum 127% af landsframleiðslu. Grísk stjórnvöld hafa hingað til haldið því fram að skuldirnar væru 115% af landsframleiðslu.

Í frétt um málið á börsen.dk segir að sérfræðingar hafi átt von á þessum tölum og jafnvel óttast að Grikkir væru með fleiri lík í lestinni en þessar tölur gefa til kynna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×