Handbolti

Arnór hvílir í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason í leik með íslenska landsliðinu.
Arnór Atlason í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Arnþór

Arnór Atlason mun ekki spila með íslenska landsliðinu í æfingaleiknum gegn Portúgal í Laugardalshöllinni í kvöld.

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sagði í samtali við Vísi að hann vildi hvíla Arnór og að hann væri ekki meiddur.

„Það eru tvær ástæður fyrir því að hann spilar ekki í kvöld. Annars vegar viljum við einfaldlega minnka álagið á honum og hins vegar skoða aðra leikmenn í þessari stöðu," sagði Guðmundur.

Eins og áður hefur komið fram mun Logi Geirsson spila í kvöld en hann hefur átt við meiðsli að stríða og óvíst hvort hann geti farið með til Austurríkis þar sem EM hefst í næstu viku. Einnig má gera ráð fyrir því að FH-ingurinn Ólafur Guðmundsson fái tækifæri til að sýna sig í kvöld.

Guðmundur sagði annars að útlitið væri nokkuð gott hjá Loga sem var lengi frá vegna axlarmeiðsla en fór ekki með landsliðinu til Þýskalands um helgina vegna eymsla í nára. „Hann er ekki með verk í öxlinni sem er mjög jákvætt. Hann finnur heldur ekki lengur til í náranum. Hann hefur hins vegar ekki spilað mikið að undanförnu og því þurfum við að sjá hver staðan er á honum í leik. Það er besti mælikvarðinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×