Viðskipti erlent

Verslunarkeðjur Kaupþings á blússandi siglingu

Mike Shearwood forstjóri Aurora Fashions segir að uppbygging félagsins muni ganga hraðar fyrir sig en áður var áætlað og að nú einbeiti stjórnin sér að frekari vexti. Aurora Fashions var stofnað af skilanefnd Kaupþings í mars í fyrra en verslunarkeðjurnar Warehouse, Oasis, Coast og Karen Millen tilheyra Aurora Fashions.

Í frétt um málið í Daily Mail segir að á sex mánaða tímabili sem lauk í júlí s.l. hafi hagnaður verslunarkeðjanna aukist um 36% og nam hann 3,5 milljörðum kr. fyrir skatta og afskriftir. Aurora Fashion hefur nú ráðið sérstaka forstjóra fyrir hverja af framangreindum verslunarkeðjum.

Fram kemur að salan í verslunum í eigu Aurora Fashion hafi aukist um 5% m.v. sama tímabil í fyrra en netverslun þeirra hafa aukist um 34%. Þá hafi félagið bætt 37 verslunum við rekstur sinn.

Aurora Fashion rekur nú 1.508 verslanir í 46 löndum, þar af eru 307 Warehouse, 250 Oasis og 205 Coast verslanir á Bretlandseyjum.

Þessar verslanir voru áður í eigu Baugs í gegnum Mosaic en Kaupþing tók þær yfir upp í 400 milljón punda skuld Mosaic við bankann. Um leið var nafninu breytt í Aurora Fashions.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×