Viðskipti erlent

Samið um fjármálin við gerð myndarinnar Hobbitinn

Stjórnvöld á Nýja Sjálandi og Warner Bros. hafa náð samkomulagi um fjármálin við gerð myndarinnar Hobbitinn eftir sögu J. R. R. Tolkien. Þar með er tryggt að myndin verður tekin upp á Nýja Sjálandi og endi er bundinn á tveggja mánaða óvissu í málinu.

Það var John Key forsætisráðherra Nýja Sjálands sem tilkynnti um samkomulagið í morgun. Það felur í sér að stjórnvöld muni veita Warner Bros. ýmsar fjárhagslegar ívilnanir en talið er að myndin muni kosta um 500 milljónir dollara eða 56 milljarða kr. Myndin verður gerð í tveimur hlutum og er forleikurinn að myndunum um Hringadrottinssögu.

Key segir að ríkisstjórn Nýja Sjálands muni standa fyrir nauðsynlegum lagabreytingum til að tryggja að gerð myndarinnar verði ekki ógnað með lögsóknum vegna þeirra ívilnana sem veittar verða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×