Viðskipti innlent

AGS: Gengisdómar kosta ríkissjóð rúma 20 milljarða

Sigríður Mogensen skrifar
Ríkið þarf væntanlega að leggja bönkunum til yfir 20 milljarða króna vegna dóms Hæstaréttar um gengistryggð lán. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í skýrslunni segir að bankarnir hafi ekki búist við að gengistryggð lán yrðu dæmd ólögmæt í Hæstarétti.

Í versta falli bjuggust bankarnir við því að lánin yrðu látin bera óverðtryggða vexti. Fram kemur í skýrslunni að dómur Hæstaréttar frá því í júní um ólögmæti gengistryggðra lána hafi hægt á endurreisn fjármálakerfisins. Eftir dóm Hæstaréttar í september um að gengistryggð lán skyldu bera óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands hafi áhætta bankakerfisins þó minnkað. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að til að bankarnir mæti kröfum um eiginfjárhlutfall þurfi líklega að leggja þeim til 45 milljarða króna í nýtt eigið fé, eða sem nemur 3% af landsframleiðslu.

Erlendir eigendur bankanna muni væntanlega bera helminginn af þeim kostnaði, og ríkið hinn helminginn. Þessi upphæð geti orðið lægri, en það fari eftir því hvar mörkin verða dregin á milli ólögmætra og lögmætra gengistryggðra lána.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×