Innlent

Hjálpa bændum í öskuskýi

Vaskir krakkar Marisol, Silja og Michael ásamt Sæmundi og Gunnari, vinum þeirra, sem lögðu þeim lið í gær. 
Fréttablaðið/auðunn
Vaskir krakkar Marisol, Silja og Michael ásamt Sæmundi og Gunnari, vinum þeirra, sem lögðu þeim lið í gær. Fréttablaðið/auðunn

„Þetta gekk bara framar björtustu vonum og krakkarnir eru himinlifandi, enda búnir að standa sig eins og hetjur," segir Sif Árnadóttir, móðir Marisol Árnýjar og Michaels Adams Amador, sem ásamt Silju Maren Björnsdóttur, vinkonu þeirra, efndu til tombólu á Akureyri í gær til styrktar bændum undir Eyjafjöllum. Marisol er níu ára, Michael Adam fimm ára og Silja Maren sjö ára.

Hugmyndin kviknaði á þriðjudag þegar krakkarnir höfðu frétt af vandræðum bænda undir Eyjafjöllum vegna öskugossins úr Eyjafjallajökli. „Þau vildu leggja þeim lið með einhverjum hætti og ákváðu að halda tombólu og byrjuðu strax að safna. Það gekk ótrúlega vel og fjölmargir létu hluti af hendi rakna."

Tombólan hófst klukkan tvö í gær við kjörbúðina Hrísalund og krakkarnir voru enn að klukkan sex síðdegis í gær. „Ég hef ekki haft tök á því að telja innkomuna en hún hleypur á tugum þúsunda," segir Sif. Peningarnir sem söfnuðust ganga til Rangárvallardeildar Rauða krossins, sem sér um að úthluta þeim þar sem þörf er á. „Það hefur gengið svo vel að við eigum ábyggilega eftir að endurtaka leikinn áður en langt um líður," segir Sif.- bs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×