Lífið

Þórarinn spreytir sig á Shakespeare

Þórarinn er að þýða verkið Lér konungur eftir Shakespeare fyrir jólasýningu Þjóðleikhússins.
Þórarinn er að þýða verkið Lér konungur eftir Shakespeare fyrir jólasýningu Þjóðleikhússins.
Rithöfundurinn Þórarinn Eldjárn er að þýða Shakespeare-verkið Lér konungur sem verður jólasýning Þjóðleikhússins. Þetta er í fyrsta sinn sem hann spreytir sig á Shakespeare.

„Ég er búinn að ná landi," segir Þórarinn, sem byrjaði að þýða 1. janúar og hefur nú lokið fyrsta uppkasti. „Þetta gekk bara vel. Mikið af þessu er í bundnu máli, svokallaðri stakhendu, sem er ekki rímað að vísu en á íslensku er beitt stuðlum. Það er ákveðinn taktur í hverri línu, fimm kveður, og það tekur smá tíma að venjast þessu. Svo dettur maður inn í ákveðinn takt," segir hann. „Síðan eru ótal álitaefni og hlutir sem eru vandasamir. En það verður bara eins og að ráða í erfiða krossgátu að láta það ganga upp."

Þetta er í þriðja sinn sem verkið Lér konungur er þýtt á íslensku. Fyrst gerði það Steingrímur Thorsteinsson í bók sem kom út á seinni hluta 19. aldar og síðast var leikritið sýnt í Þjóðleikhúsinu 1977 í þýðingu hins sáluga Helga Hálfdanarsonar, sem hefur hingað til verið hinn „opinberi" Shakespeare-þýðandi.

Heyrst hefur að þýðing Þórarins sé ekki eins formleg og hinar eldri en Þórarinn vísar því á bug. „Það er þannig með mikil og merkileg bókmenntaverk að þau þarf að þýða oft. Þessi þýðing er ekkert minna formleg en þeirra en málfarið er annað. Þetta miðar fyrst og fremst að því að vera á eðlilegri og skiljanlegri nútímaíslensku án þess nokkurn tíma að fara út í einhverja lágkúru."

Þórarinn hefur aldrei áður þýtt Shakespeare og segist ekki vera neinn sérfræðingur í hans texta. „Auðvitað dáist ég mikið að þessum stórfenglega skáldskap sem er að finna bæði í leikritum hans og ekki síður í sonnettunum. En ég er enginn Shakespeare-sérfræðingur umfram aðra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.