Innlent

Himinn og haf skilur að slökkviliðsmenn og vinnuveitendur

Heimir Már Pétursson skrifar
Himinn og haf skilur að kröfur slökkviliðs og sjúkraflutningamanna og það sem sveitarfélögin eru tilbúin að bjóða þeim, en verkfallsaðgerðir þeirra hefjast í fyrramálið. Áætlanaflug til Akureyrar raskast vegna aðgerðanna.

Aðgerðirnar standa frá klukkan átta í fyrramálið til klukkan fjögur. Þar sem slökkviliðsmenn á Akureyrarflugvelli eru í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hafa aðgerðirnar áhrif á áætlaflug þangað. Flugfélag Íslands hefur því flýtt morgunferðum sínum norður til klukkan korter í sjö, fellt niður hádegisferðina og seinkað kaffivélinni frá Reykjavík til klukkan korter yfir þrjú. Flug til Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar frá Akureyri raskast ekki. Ekkert hefur verið fundað í deilunni frá því á fimmtudag fyrir viku, þegar slökkviliðsmenn höfnuðu tilboði frá samninganefnd sveitarfélaganna. Formaður samninganefndar sveitarfélaganna segir kröfur slökkviliðsmanna langt frá því sem sveitarfélögin geti boðið.

Samningar slökkviliðsmanna hafa verið lausir frá því í ágúst í fyrra en um það leyti höfnuðu þeir gerðum samningi í atkvæðagreiðslu. Inga Rós segir sveitarfélögin bundin af stöðufleikasáttmálanum sem gildi fram í nóvember. Hann miði að því að leiðrétta laun undir 200 þúsund krónum á mánuði en meðalheildarvinnulaun slökkviliðsmanna séu um 470 þúsund á mánuði og meðal dagvinnulaun um 250 þúsund. Slökkviliðsmönnum var boðin 1,4 prósenta hækkun sl. fimmtudag fram að nýrri samningslotu í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×