Lífið

Mátti ekki fara með gifs í flug og reif það því af sér

Hjördís Lilja Örnólfsdóttir dansari lenti í miklum vandræðum þegar hún ætlaði að fljúga heim frá Póllandi.
Hjördís Lilja Örnólfsdóttir dansari lenti í miklum vandræðum þegar hún ætlaði að fljúga heim frá Póllandi.

Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, dansari hjá Íslenska Dansflokknum, slasaðist illa á sýningu flokksins í Póllandi fyrir stuttu. Hjördís Lilja var flutt á spítala strax að sýningu lokinni þar sem öxlin á henni var gifsuð sem varð til þess að henni var meinað að fara um borð í flugvélina heim til Íslands.

„Þetta var síðasta sýningin okkar í Póllandi og rétt fyrir lokaatriðið okkar fór ég í lyftu og lenti heldur illa úr henni og datt á öxlina. Ég fann strax að það var eitthvað mikið að því ég gat ekki hreyft á mér vinstri handlegginn, ég kláraði samt dansinn og reyndi að koma því til skila til dansfélaganna að ég gæti ekki hreyft handlegginn. Ég man þetta ekki nákvæmlega en við náðum þó að klára verkið," segir Hjördís Lilja, en við fallið slitnuðu liðbönd sem halda viðbeininu við öxlina auk þess sem hún tognaði.

„Eftir sýninguna var ég keyrð upp á næsta spítala þar sem voru aðeins tveir læknar á vakt og þeir voru báðir í aðgerð. Við biðum í svolitla stund og þá kom annar læknirinn fram með blóðuga hanska og sagðist geta litið á mig ef ég biði í fimm klukkutíma." Hjördís Lilja ákvað að prófa annan spítala en þar var einnig löng bið eftir lækni en á þriðja spítalanum komst hún loks undir læknishendur. „Þar var ég send í röntgen og svo sett í brjálað gifs sem náði mér niður að mitti og handleggurinn var gifsaður fastur við líkamann," útskýrir Hjördís Lilja sem lenti svo í miklum vandræðum þegar hún ætlaði að fljúga heim.

„Ég lenti í vandræðum strax við innritunina vegna gifsisins og svo aftur við öryggishliðið. Þegar það voru um tuttugu mínútur í að við máttum fara um borð fékk ég þær fréttir að ég mætti ekki fljúga þar sem ég væri ekki með neitt læknisvottorð. Mér tókst að sannfæra manninn um að ég væri ekki of alvarlega slösuð og bað hann um að redda mér áhaldi til að rífa af mér gifsið, sem hann gerði. Ég og vinkona mín fórum svo inn á klóset þar sem við náðum á einhvern hátt að rífa þetta allt utan af mér. Sem betur fer var ég með aukabol í handfarangrinum því annars hefði ég bara verið ber að ofan," segir hún og hlær.

Hjördís Lilja segist eiga eftir að ná fullum bata og kveðst heppin að öxlin sjálf hafi ekki brotnað við fallið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.