Viðskipti innlent

Misstu stjórn á sér

Ásta Dís Óladóttir
Ásta Dís Óladóttir

„Mig er farið að klæja í puttana að loka nýjum díl, við höfum ekkert gert á þessu ári," sagði einn viðmælenda Ástu Dísar Óladóttur sem rannsakaði fjárfestingar Íslendinga erlendis í doktorsritgerð sinni sem hún varði við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Ásta Dís komst meðal annars að því í rannsókn sinni að er líða tók á fyrsta áratug 21. aldarinnar töpuðu menn sérhæfni í fjárfestingum og fóru að fjárfesta í alls konar fyrirtækjum. Græðgi hafi jafnvel virst ráða för í sumum tilfellum frekar en úthugsuð fjárfestingarstefna, eins og ofangreind tilvitnun sýnir.

Ásta Dís lagði upp með að skoða alþjóðavæðingu fyrirtækja frá smáum hagkerfum með áherslu á Ísland. En hún bar einnig saman fjárfestingar Íslendinga, Íra og Ísraela. Í ljós kom að íslensku fyrirtækin fjárfestu í sömu greinum og fyrirtækin frá Írlandi og Ísrael, í fjármála- og tryggingageiranum og í fasteignum. Eins fjárfestu fyrirtækin frá löndunum þremur mest í Evrópu og Norður-Ameríku. Munurinn á fjárfestingum þessara þriggja landa fólst hins vegar aðallega í því að Íslendingar notuðu í mun meira mæli skuldsett eigið fé í fjárfestingum, það er að segja að móðurfélögin skuldsettu sig á móti eigin fjár þætti yfirtökunnar.

Fá íslensk fyrirtæki stóðu í raun á bak við umsvifamiklar fjárfestingar Íslendinga sem röðuðu sér á topp World Investment Report-listans nokkur ár í röð.

Ásta Dís segir margar stofnanir hafa sofið á verðinum, eftirlit með fjárfestingum hafi brugðist bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur í framhaldinu hug á að rannsaka þátt seljendanna, en hún bendir á að Danir og Bretar, sem duglegir hafi verið að gagnrýna Íslendinga, hafi einnig verið þeir er seldu Íslendingum mörg félaganna. Einnig hafi þeir í mörgum tilfellum lánað fyrir kaupunum, ásamt því að fjármagna íslensku bankana til að standa að baki fjárfestingunum. sbt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×