Innlent

Ekkert persónukjör í kosningunum í vor

Ráðhús Reykjavíkur. Sveitarfélögin töldu ekki nægan tíma til að breyta lögum um kosningar og koma á persónukjöri. Ekkert slíkt verður í boði í kosningunum 29. maí.fréttablaðið/stefán
Ráðhús Reykjavíkur. Sveitarfélögin töldu ekki nægan tíma til að breyta lögum um kosningar og koma á persónukjöri. Ekkert slíkt verður í boði í kosningunum 29. maí.fréttablaðið/stefán

Ekkert persónukjör er í boði í kosningum til sveitarstjórna í maí. Frumvarp um slíkt var lagt fram í haust en er inni í allsherjarnefnd. Meðal þeirra sem lögðust gegn afgreiðslu frumvarpsins var stjórn Vinstri grænna, sem vildi vísa málinu til stjórnlagaþings. Þá töldu sveitarfélögin of skamman tíma til stefnu fyrir vorið.

„Þetta næst ekki fyrir kosningar og ástæðan er fyrst og fremst sú að sveitarfélögin lögðust alfarið gegn því og töldu allt of stuttan fyrirvara að koma persónukjöri á fyrir kosningarnar í vor,“ segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar.

Háværar kröfur voru um persónu­kjör í og eftir búsáhaldabyltinguna. Dómsmálaráðherra lagði fram tvö frumvörp um málið í nóvember, annars vegar til alþingis- og hins vegar sveitarstjórnarkosninga.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að þar á bæ hafi mönnum þótt tíminn of knappur til kosninga í vor. Margt í frumvarpinu hafi fallið að hugmyndum lýðræðisnefndar sambandsins en annað gengið of skammt.

„Við töldum að tíminn þyrfti að vera betri og einnig að það yrði að vera hægt að velja af öðrum listum líka.“

Stjórn Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs sendi nefndinni neikvæða umsögn og lagði til að frumvarpinu yrði vísað inn í umræðu um stjórnlagaþing. Flokkurinn væri hins vegar reiðubúinn til að skoða ýmsa möguleika á að auka áhrif kjósenda á röðun lista, meðal annars rýmri heimildir til útstrikunar og endurröðunar.

Steinunn Valdís segir að málið verði tekið aftur í haust, enda séu fáir þingdagar eftir. „Við reynum að klára þetta þá. Þetta er eitt af stóru umbótamálunum sem verða að komast í gegn. Um þetta eru hins vegar deildar meiningar.“

kolbeinn@frettabladid.is

steinunn valdís óskarsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×