Bíó og sjónvarp

Fimm flottar eitís-myndir

Baltasar Kormákur hyggst gera kvikmynd um þrekraun Guðlaugs Friðþórssonar, sem synti í land við ótrúlega erfiðar aðstæður eftir að skip hans fórst við Vestmannaeyjar árið 1984. Ef myndin tekst vel og verður vinsæl má fastlega gera ráð fyrir að fleiri geri sannsögulegar kvikmyndir um atburði frá níunda áratugnum. Hér eru fimm hugmyndir að eitís-myndum:

1. Einbúinn

Í þessari ljúfsáru mynd um vináttu segir frá einbúanum Gísla á Uppsölum, sem sigrar hjörtu og hugi landsmanna í nærmyndum fréttamannsins Ómars (Atli Rafn Sigurðarson). Gísli Örn Garðarsson vinnur leiksigur í túlkun sinni á nafna sínum.

2. Gleðibankinn

Í þessari ærslafullu mynd segir frá vonum og væntingum þjóðarinnar þegar tækifærið til að senda lag í Eurovision kom loksins upp í hendurnar á henni. Icy-flokkinn leika þau Björgvin Franz Gíslason (Pálmi Gunnarsson), Hafdís Huld (Helga Möller) og Ingó Veðurguð (Eiki Hauks).

3. Vigdís forseti

Hádramatísk mynd um kosningabaráttu og sigur fyrsta kvenforseta í heimi. Ágústa Eva Erlendsdóttir fer með aðalhlutverkið.

4. Breyttir tímar

Árið er 1984. Bubbi Morthens, poppstjarna Íslands, er í bullandi neyslu og fer til Los Angeles til að freista gæfunnar. Aðalhlutverkið leikur Tómas Lemarquis en skúrkinn og umboðsmanninn Cocaine Bob leikur Ingvar E. Sigurðsson.

5. Hringrás

Í myndinni segir frá afreki Reynis Péturs, þegar hann gekk hringveginn í þágu góðs málefnis. Áhorfendur fylgjast með baráttu hans við náttúruöflin og hvernig gangan gerði hann að landsfrægum manni. Ingvar E. Sigurðsson vinnur leiksigur í aðalhlutverkinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×