Viðskipti erlent

Dómstóll í Texas setur lögbann á sölu Liverpool

Dómstóll í Texas hefur sett lögbann á fyrirhugaða sölu á breska fótboltaliðinu Liverpool en bandarískir eigendur þess, Tom Hicks og George Gillett, reyna nú allt hvað þeir geta til að koma í veg fyrir söluna.

Dómstóll í Lundúnum hafði í gærdag staðfest að salan ætti að ganga í gegn en eigendurnir eru í miklum fjárhagserfiðleikum og skulda Royal Bank of Scotland háar upphæðir.

Annar bandaríkjamaður, John Henry eigandi Red Sox hafnaboltaliðsins hafði gert tilboð í félagið í gegnum fjárfestingarfélag sitt NESV sem bandarísku eigendunum finnst of lágt en breski dómstólinn fyrirskipaði að salan ætti að ganga í gegn. Óljóst er hvaða áhrif lögbannið hefur en skoski bankinn lýsti því strax yfir að því yrði hnekkt.

Í frétt um málið á BBC er haft eftir Robert Preston viðskiptaritstjóra BBC að þótt dómstóllinn í Texas hafi enga lögsögu í Bretlandi muni hvorki NESV né Royal Bank of Scotland hundsa lögbannið. „Slíkt gæti skaðað umtalsverð umsvif þessara aðila í Bandaríkjunum," segir Preston.

Preston segir að fái NESV og Royal Bank of Scotland lögbanninu í Rexas hnekkt í dag muni Liverpool verða selt undan þeim Hicks og Gillet samdægurs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×