„Ég geri ráð fyrir að þetta frumvarp eigi eftir að taka miklum breytingum,“ segir Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd.
„Stærsta athugasemdin er sú að efnahagslegar forsendur þess, varðandi hagvöxtinn sérstaklega, eru mjög veikar svo ekki sé meira sagt.“
Kristján segir að forsendurnar séu mestan part úr þjóðhagsspá frá því í júní, þar sem gert sé ráð fyrir því að stóriðjuframkvæmdir verði burðurinn í hagvextinum. „Það sjá það allir menn og vita hvernig statt er fyrir þeim verkum í dag,“ segir Kristján.
Hann segir að það eigi eftir að koma í ljós hvernig niðurskurðurinn muni bitna á starfsmönnum í heilbrigðis- og félagslega geiranum. Þar muni eflaust hundruð manns missa vinnuna. Þá virðist niðurskurðurinn koma harkalega niður á ýmsum byggðum landsins. - sh