Enski boltinn

Buffon: Fer ekki til Manchester United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Gianluigi Buffon ætlar ekki að fara frá Juventus og ganga til liðs við Manchester United. Þetta segir hann við ítalska fjölmiðla í dag.

United er að leita að eftirmanni hins fertuga Edwin van der Sar sem varið hefur mark United með miklum ágætum undanfarnar leiktíðir.

Buffon hefur lengi verið orðaður við United en hann hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu.

„Manchester United? Ég hef lært að lifa með þessum orðrómum enda hefur þetta verið rætt reglulega undanfarin sex ár. En ekkert hefur gerst," sagði Buffon.

Juventus hefur gengið vel í ítölsku úrvalsdeildinni undanfarið og ekki tapað í sex leikjum í röð. Liðið er í fjórða sæti deildarinnar, aðeins fjórum stigum á eftir toppliði Lazio.

„Þetta er að ganga betur hjá okkur og þetta er allt á réttri leið," sagði Buffon. „Við erum að verða nokkuð sterkt lið."

„Endurhæfingin mín gengur eins og við mátti búast. Ég ætti að geta byrjað að spila aftur í janúar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×