Lífið

Piparmeyjan elskar Ísland

Ali piparjómfrú var gríðarlega ánægð með dvöl sína á Íslandi.
Ali piparjómfrú var gríðarlega ánægð með dvöl sína á Íslandi.

„Það var kannski kalt á Íslandi, en ferðalagið var vel þess virði. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Ísland er stórkostlegt land og ég sá eitthvað öðruvísi en ég á að venjast á hverjum degi.“

Svona hefst bloggfærsla Ali Fedotowsky, piparmeyjunnar í bandarísku Bachelorette-þáttunum, um ferðina til Íslands. Eins og Fréttablaðið hefur greint frá var einn þáttur tekinn upp á Íslandi um það leyti sem hræringar voru í gangi í eldfjöllum Suðurlands. Þátturinn fékk góðar viðtökur og verður vafalaust góð landkynning, enda virðist Ali hafa prófað ýmislegt sem Ísland hefur upp á að bjóða ásamt vonbiðlum sínum.

„Mér fannst töff að upplifa menninguna á Íslandi,“ heldur hún áfram. „Ég fékk að sjá menn spila á íslenskan sílófón og svo var einstakt að heyra rímurnar. Sérstaklega á stefnumóti.“

Ali hafði alltaf dreymt um að fara á hestbak og fékk ósk sína uppfyllta í ferðinni. Þá lentu hún og einn af vonbiðlunum í hrakningum í hestaferðinni. „Leiðsögumaðurinn sem var með okkur var virkilega hræddur í smástund vegna þess að við riðum hestunum upp á helli,“ segir hún. „Hestarnir voru svo þungir að þeir hefðu getað fallið í gegn hvenær sem er. Til allrar hamingju gerðist það ekki.“

Ali fékk að sjálfsögðu að kynnast veðráttunni á Íslandi, en hún segist ekki vera vön kuldanum sem hún upplifði og var ánægð með að komast í heitt vatn. „Ég var svo ánægð með að enda daginn í Bláa lóninu. Og ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvort ég var í bikiníinu undir snjógallanum, þá verð ég að hryggja ykkur með því að svo var ekki. Ég hefði frosið í hel!“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.