Vinna á nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík sem gerir ráð fyrir að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni fyrir byggingarlóðum.
Þær skal síðan setja að veði fyrir 21 til 25 milljarða króna láni sem nýta á meðal annars til að draga til baka niðurskurð í grunnþjónustu borgarinnar. Þetta er meginstefið í stefnu Reykjavíkurframboðsins, sem kynnti stefnumál sín fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Perlunni í gær.
Reykjavíkurframboðið reiknar með því að byggingamarkaðurinn lifni við aftur árið 2013 og lóðirnar seljist. Andvirðið fari þá í að greiða niður lánið. Þangað til séu lóðirnar veðhæfar.
„Það er ekki hægt að tapa á þessu," segir Haukur Nikulásson, sem skipar þriðja sæti listans. Hann segir að fjórflokkurinn í borginni hafi undanfarin kjörtímabil fórnað hagsmunum borgarinnar fyrir hagsmunum flokkanna á landsvísu. Því þurfi nýtt fólk í borgarstjórn.
Reykjavíkurframboðið hyggst einnig stuðla að auknu umferðaröryggi með fjölgun hraðahindrana og götum með 30 kílómetra hámarkshraða, bæta þjónustu Strætó og veita auknu fé til viðhalds og nýsköpunar. - sh