Viðskipti innlent

Greining: Líklegra að lánshæfismat ríkissjóðs lækki

Greining Íslandsbanka greinir frá fyrstu viðbrögðum fjármálamarkaðarins við ákvörðun forsetans í Icesave málinu. Þar kemur m.a. fram að nú sé líklegra en ella að lánshæfismat ríkissjóðs lækki.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að nokkur viðbrögð voru á skuldabréfamarkaði við tilkynningu forseta Íslands um að synja nýsettum lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinga staðfestingu en fjárfestar hafa verið að selja óvertryggð ríkisskuldabréf og kaupa verðtryggð. Hefur krafa fyrrnefndu bréfanna hækkað um 13-26 punkta frá opnun þegar þetta er ritað en krafa þeirra síðarnefndu lækkað um 1-2 punkta.

Endurspegla viðbrögðin að fjárfestar reikna nú með minni lækkun stýrivaxta Seðlabankans í lok janúar, líklegt sé að næstu endurskoðun á áætlun AGS og stjórnvalda verði frestað og að líklegra sé nú en ella að lánshæfi ríkissjóðs verði lækkað.

Einnig hækkaði skuldatryggingaálag ríkissjóðs nokkuð en hafa verður í huga að sá markaður er óvirkur og ófullkominn. Engar breytingar urðu á gengi krónunnar enda er gjaldeyrismarkaðurinn einnig afar óvirkur um þessar mundir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×