Viðskipti erlent

Skortur verður á jólatrjám í Noregi og Danmörku

Langir biðlistar eru þegar að myndast eftir jólatrjám í Noregi. Í Danmörku er útséð um að nægilegur fjöldi jólatrjá verði til staðar fyrir innanlandsmarkaðinn.

Ragnhild Foss Alsvik hjá Norsk Juletreservice segir að fyrir utan biðlistana sé mikil eftirspurn eftir jólatrjám. „Ég tel að stór hluti götusala og annarra jólatrésala muni ekki fá nein tré í ár," segir Ragnhild.

Noregur flytur út 70.000 jólatré í ár til Danmerkur, Englands, Þýskalands, Sviss og Austurríkis. Hinsvegar hefur harður vetur í fyrra gert það að verkum að grenitré eru víða sködduð á stórum svæðum í Noregi sem og víða í öðrum Evrópulöndum. Þannig þurftu Norðmenn að greiða metfé fyrir sín jólatré í fyrra sökum mikilar eftirspurnar umfram framboðið.

Hvað Danmörku varðar er þegar búið að selja 75% af jólatrjá ársins til útlanda. Kaj Östergaard hjá Dansk Juletræsdyrkeforening segir í samtali við business.dk að Danir muni þurfa að borga meira fyrir sín tré í ár en í fyrra. „Það eru einfaldlega ekki til nægilega mörg tré fyrir alla sem vilja," segir Kaj.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×