Viðskipti innlent

Hætt við bankakaup eftir hæstaréttardóm

Áhugi erlendra fjárfesta á kaupum á Íslandsbanka dvínaði eftir gengisdóm Hæstaréttar, segir formaður skilanefndar Glitnis.Fréttablaðið/anton
Áhugi erlendra fjárfesta á kaupum á Íslandsbanka dvínaði eftir gengisdóm Hæstaréttar, segir formaður skilanefndar Glitnis.Fréttablaðið/anton
Erlendir fjárfestar misstu áhuga á kaupum á tæpum þrjátíu prósenta hlut í Íslandsbanka eftir að Hæstiréttur dæmdi erlend gengislán ólögmæt í júní. Þeir höfðu sett sig í samband við svissneska risabankann UBS, sem er með hlut skilanefndar Glitnis í bankanum í söluferli, og lýst yfir áhuga á honum.

„Þetta var komið í ágætan farveg en var sjálfhætt eftir gengisdóminn. Eftir hann hefur ekkert gengið,“ segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis. Hann á jafnframt sæti í stjórn Íslandsbanka í krafti eignarhlutar kröfuhafa. Árni bætir við að óstöðugt fjármálaumhverfi hér hafi fælt fjárfestana frá og verði að byrja frá grunni. Hann vill ekki tjá sig um fjárfestana að öðru leyti.

Íslandsbanki er að mestu í eigu erlendra kröfuhafa en félag þeirra, ISB Holding, fer með 95 prósenta hlut. Ríkið á fimm prósentin sem upp á vantar. Fram kom á kynningarfundi skilanefndar í febrúarlok að verðmæti 95 prósenta hlutarins næmi hundrað milljörðum. Nýtt mat er væntanlegt í september.

Fréttablaðið greindi frá því í mars að þýskir kröfuhafar Glitnis hefðu sett sig upp á móti yfirtöku skilanefndar á 95 prósenta hlut í Íslandsbanka í fyrrahaust og vilji ekki eiga hann til frambúðar. Af þeim sökum setti skilanefnd hlut sinn í bankanum í söluferli snemma á árinu. UBS-bankinn er ráðgjafi við söluna og stefnir skilanefnd að því að nýir eigendur komi að Íslandsbanka á næstu þremur til fimm árum. Söluandvirðið fer upp í kröfur í þrotabú Glitnis.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins setja erlendir fjárfestar fyrir sig gjaldeyrishöft, eða vilja að búið verði að koma skikki á gengismál með einhverjum hætti eigi þeir að hafa áhuga á að festa fé sitt hér á landi til langframa.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir þetta ekki koma sér á óvart. Fjárfestar, íslenskir sem erlendir, séu hikandi, kippi jafnvel að sér höndum þegar vinnubrögð stjórnvalda séu jafn tilviljunarkennd og nú og viðhorf neikvætt í garð erlendrar fjárfestingar. „Fjárfestar vilja ekki láta koma aftan að sér en það hefur gerst of oft á síðustu mánuðum og misserum. Þar kemur ýmislegt til, svo sem umræddur gengislánadómur, nýlegar hugmyndir um þjóðvæðingu í orkugeiranum eða breytingar á lögum um yfirtökuskyldu sem eru í raun afturvirkar,“ segir hann.- jab





Fleiri fréttir

Sjá meira


×