Enski boltinn

Tíu Tottenham-menn lögðu Houllier og lærisveina

Elvar Geir Magnússon skrifar

Í kvöld hitnaði enn frekar undir Gerard Houllier, stjóra Aston Villa. Liðið tapaði þá 1-2 á heimavelli sínum fyrir Tottenham þrátt fyrir að hafa verið einum fleiri stærstan hluta leiksins.

Rafael van der Vaart heldur áfram að sýna að hann var hverrar krónu virði og kom hann Tottenham yfir á 23. mínútu. Liðið lenti svo manni færri fimm mínutum síðar þegar Jermain Defoe fékk beint rautt spjald fyrir olnbogaskot. Verulega strangur dómur en þetta virtist alls ekki viljaverk hjá Defoe.

Einum færri bætti Tottenham við marki eftir glæsilega skyndisókn á 67. mínútu. Gareth Bale geystist fram og renndi knettinum á Aaron Lennon sem lagði hann síðan upp á Van der Vaart sem kláraði örugglega í hornið.

Aston Villa minnkaði muninn þegar fyrirgjöf Marc Albrighton flaug í netið án þess að nokkur hafi náð að snerta knöttinn. Þrátt fyrir fjórar mínútur í uppbótartíma náði Aston Villa ekki að bjarga stigi.

Tottenham er nú í fimmta sæti, sjö stigum á eftir toppliði Manchester United. Aston Villa situr í 15. sæti, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×