Handbolti

Hrafnhildur: Mjög góð stemning í liðinu

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir var ánægð með sigurinn.
Hrafnhildur Skúladóttir var ánægð með sigurinn.
„Þetta var svipað og við mátti búast en við áttum bara að vera löngu búnar að klára þetta í fyrri hálfleik. Við hefðum átt að vera svona tíu til tólf mörkum yfir í hálfleik miðað við hvernig leikurinn spilaðist," sagði Hrafnhildur Skúladóttir, leikmaður Vals, eftir nauman sigur 20-19 gegn Fram í fyrstu viðureign liðanna í úrslitaeinvíginu í N1-deild kvenna í handbolta.

„Ég var rosalega ánægð með fyrri hálfleikinn fyrir utan þessi færi sem að við vorum að klikka á. Við vorum að klúðra endalaust af dauða færum á meðan að þær komast hvorki lönd né strönd. Þær skutu varla á markið því við spiluðum svo góða vörn. Það er synd að þetta skuli hafa endað í svona spennu," sagði Hrafnhildur.

Hrafnhildur segir liðsheildina vera mjög sterka á Hlíðarenda og hefur enga trú á því að það breytist.

„Við mætum alveg vitlausar til leiks á þriðjudaginn og ætlum okkur ekkert að fara gefa neitt eftir. Það er mjög góð stemning í liðinu og veturinn búinn að vera frábær. Við erum deildarmeistarar og þann titil er erfiðast að vinna. Töpuðum bara einum leik þannig að liðsheildin er búin að vera frábær í allan vetur og heldur þannig áfram," sagði Hrafnhildur sátt með sigurinn í leikslok.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×