Formúla 1

Hamilton fær refsingu í Japan

Það hefur gengið á ýmsu hjá Lewis Hamilton þessa mótshelgina og honum verður refsað eftir tímatökuna í nótt.
Það hefur gengið á ýmsu hjá Lewis Hamilton þessa mótshelgina og honum verður refsað eftir tímatökuna í nótt. Mynd: Getty Images

Lewis Hamilton fær fimm sæta refsingu eftir tímatökuna á Suzuka brautinni sem verður í nótt, fimm tímum á undan kappakstrinum. Tímatökunni var frestað s.l. nótt vegna vatnselgs á brautinni, en hún verður sýnd kl. 00.45 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport eftir miðnætti.

í frétt á autosport.com sagðist starfsmaður McLaren hafa séð óeðlilegan olíuleka á bíl Hamiltons í lokaæfingunni fyrir tímatökuna. Talið var að búið hefði verið að lagfæra lekann, en í ljós kom á meðan beðið var eftir því að tímatakan hæfist að eitthvað var mikið að.

Liðið ákvað því að skipta um gírkassa í bíl Hamiltons og samkvæmt reglum þýðir það að hann fær fimm sæta refsingu eftir að tímatökunni lýkur. Hamilton er í þriðja sæti í stigakeppni ökumanna og hann keyrði bíl sinn útaf á fyrri æfingunni á föstudag og skemmdi hann mikið. Tapaði þar með dýrmætum aksturstíma á seinni æfingunni, þar sem langan tíma tók að laga bíl hans.

Það er því ýmislegt búið að vinna á móti Hamilton, sem er þó sannur baráttujaxl, en hann hefur engu að síður fallið úr leik í tveimur mótum í röð eftir samstuð við keppinaut í brautinni.

Hamilton er meðal fimm ökumanna sem er að berjast um meistaratitilinn í Formúlu 1 þegar fjórum mótum er ólokið.





 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×