Viðskipti erlent

Bretar, Svíar og Danir lána Írum beint

Bretar hafa samþykkt að lána Írum 3,2 milljarða punda, eða hátt í 600 milljarða kr. með tvíhliða lánasamningum. Svíar og Danir hafa ákveðið að lána Írum en þessi lán eru til hliðar við neyðaraðstoð ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Í frétt um málið í Financial Times segir að George Osborne fjármálaráðherra Bretlands hafi auk þessa láns ákveðið að Bretar leggi til 2,6 milljarða punda í gegnum neyðaraðstoð ESB og 800 milljónir punda gegnum AGS. Í heild nema lán Breta til Íra því um 6,6 milljörðum punda eða um 1.200 milljörðum kr.

„Við reiknum fastlega með að fá þetta fé endurgreitt," segir Osborne. Bretar eiga mikilla hagsmuna að gæta á Írlandi sökum þess að breskir bankar hafa veitt Írum umfangsmikil lán á undanförnum árum.

Svíar muni lána Írum tæplega 600 milljónir evra eða um 92 milljarða kr. í gegnum tvíhliða lánasamninga og Danir munu leggja til rúmlega 300 milljónir evra.

Fram kemur í Financial Times að af Norðurlöndunum eigi Danir mestra hagsmuna að gæta við að Írland haldi efnahagslegum stöðguleika sínum. Þetta er sökum þess að Danske Bank er með umfangsmikla bankastarfsemi á Írlandi í gegnum eignarhald sitt í National Irish Bank.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×