Viðskipti innlent

Sigurður krafinn um 600 milljónir

Slitastjórn Kaupþings hefur stefnt Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni, til greiðslu á um 600 milljóna króna skuld sem stofnað var til vegna hlutabréfakaupa í bankanum.

Lán sem Kaupþing veitti um 130 starfsmönnum sínum til hlutafjárkaupa stóðu í um 45 milljörðum króna í upphafi árs 2008 eða tæplega 10% af eiginfjárgrunni bankans að því er fram kemur í rannsóknarskýrslu Alþingis. Starfsmenn báru 10% sjálfskuldarábyrgð á lánunum en sú ábyrgð var felld niður á stjórnarfundi rétt fyrir hrun bankans. Þau lán sem Kaupþing hafði veitt Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni bankans, stóðu í um 6,3 milljörðum króna við fall bankans.

Í maí tilkynnti slitastjórn Kaupþings að innheimta ætti lán til starfsmanna vegna hlutabréfakaupa. Þegar Sigurður kom hingað til lands í þar síðustu viku til að fara í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara nýtti slitastjórnin tækifærið og birti honum stefnu en Sigurður hefur sem kunnugt er verið búsettur í Bretlandi undanfarin ár. Samkvæmt heimildum fréttastofu krefur slitastjórnin Sigurð um tæplega 600 milljónir króna. Búast má við að málið verði þingfest undir lok septembermánaðar.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er listi yfir þá starfsmenn sem skulduðu bankanum mest vegna hlutabréfakaupa. Ofarlega á þeim lista eru t.a.m. Ingólfur Helgason, Hreiðar Már Sigurðsson, Kristján Arason og félag hans 7 hægri ehf. Slitastjórnin vinnur einnig að því að rifta ráðstöfunum nokkurra aðila sem færðu eignarhluti sína yfir í einkahlutafélög. Má gera ráð fyrir að riftunarmálin verði þingfest í september og október takist ekki að semja við starfsmennina áður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×