Enski boltinn

Enn þarf Hermann að bíða eftir launatékkanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson í leik með Portsmouth.
Hermann Hreiðarsson í leik með Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images

Hermann Hreiðarsson og félagar í Portsmouth hafa ekki fengið greidd laun um áramótin og þurfa að bíða að minnsta kosti til 5. janúar eftir þeim.

Fjárhagsvandræði Portsmouth virðast engan endi ætla að taka en í vikunni var greint frá því að ensk skattayfirvöld hafa farið fram á að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Ef eigendum Portsmouoth tekst ekki að greiða úr skuldaflækju félagsins áður en febrúar er liðinn má gera ráð fyrir því að dagar félagsins í núverandi mynd verði taldir og félagið dæmt niður um deild.

Portsmouth hefur einnig verið bannað að kaupa nýja leikmenn en félagið skuldar til að mynda franska félaginu Lens enn pening vegna kaupa þess á þeim Nadir Belhadj og Aruna Dindane. Félagið skuldar einnig Arsenal og Chelsea fyrir Lassana Diarra og Glen Johnson, þó svo að Diarra hafi verið seldur til Real Madrid og Johnson til Liverpool.

Launagreiðslur til starfsmanna Portsmouth bárust einnig ekki á réttum tíma í september og nóvember en fram kom í yfirlýsingu frá félaginu í dag að félagið ætti von á að geta borgað laun á þriðjudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×