Lífið

Landsliðskonur í laxveiði í Grímsá

Landsliðskonurnar ásamt þjálfara tóku sig vel út í veiði í Grímsá.
Landsliðskonurnar ásamt þjálfara tóku sig vel út í veiði í Grímsá.
Landsliðskonurnar Þóra Helgadóttir og Katrín Ómarsdóttir ásamt þjálfaranum Sigurði Ragnarssyni fóru saman í lax á dögunum. Hugmyndin var þó ekki algjörlega þeirra þar sem sjónvarpsmyndavélar frá Stöð 2 Sport fylgdust með.

„Ég hef veitt þónokkuð í gegnum tíðina, en Þóra og Siggi lítið sem ekkert. Ætli ég kenni þeim ekki það sem ég kann,“ segir fótboltakonan Katrín Ómarsdóttir.

Katrín birtist í veiðiþættinum Veiðiperlur sem sýndur er á Stöð 2 sport í sumar, ásamt Þóru Helgadóttur og Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, þjálfara kvennalandsliðsins.

Veiðiperlur er tólf þátta sería sem fer í loftið 22. júlí. Í þættinum er fjallað um stangveiði og sýnt frá veiði á öllum landshornum ásamt því að landsþekktir gestir sýna takta með stöngina. Þar að auki er fjallað um lífsstíl og matargerð tengda veiði.

„Þetta áhugamál virðist verða vinsælla með hverju sumrinu og sífellt fleiri kvenmenn virðast sækja í það. Ég held að það hafi þótt við hæfi að fá afrekskonur í íþróttum í einn þáttinn og þess vegna erum við hér,“ segir Katrín en þau voru á leið í tveggja daga veiði í Grímsá í Borgarfirði í blíðskaparveðri þegar Fréttablaðið hafði samband.

„Veðrið er reyndar ekki heppilegt þó það sé gott. Vatnið verður of heitt í góðu veðri og þá er erfiðara að ná fisk. En við veiðum samt, ég lofa,“ sagði landsliðskonan – keppnis­skapið með í för.

linda@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.