Viðskipti innlent

Spá því að verðbólga fari niður í 4,5%

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki í ágúst um 0,2% frá júlímánuði. Gangi spáin eftir mun verðbólga hjaðna úr 4,8% í 4,5% í ágústmánuði, og hefur verðbólgan þá ekki mælst minni hérlendis frá lokamánuðum ársins 2007. Í ágúst lýkur sumarútsölunum og reiknar Greining með að áhrif vegna útsöluloka nú vegi til 0,3% hækkunar á neysluverðsvísitölu.

Greining telur þó að áhrif útsöluloka séu mildari nú en oft áður vegna sterkari gengis krónunnar en krónan hefur styrkst um 2,5% undanfarin mánuð og um 8% undanfarna 3 mánuði. Útsölulokin ásamt hækkandi eldsneytisverði muna mestu um hækkun á neysluverðsvísitölu.

Greining gerir ráð fyrir að eldsneytisverð muni vega til 0,16% hækkunar á neysluverðsvísitölu þennan mánuðinn en eldsneytisverð hefur hækkað töluvert frá júlí mælingu Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×