„Ég vil benda á að svona orðalag ýtir undir fordóma í samfélaginu. Það eru engar rannsóknir sem sína að fólk sem glímir við geðveiki eða sjúkdóm af því tagi sé eitthvað brjálaðra eða hættulegra en annað fólk," segir Bergþór G. Böðvarsson, fulltrúi notenda geðsviðs Landspítalans.
Rætt var við Þór Saari, þingmann Hreyfingarinnar, um ástandið í þjóðfélaginu í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær. Þar sagði hann meðal annars: „Það gengur ekki að hafa tugþúsundir manna niðri á Austurvelli öskrandi á Alþingishúsið og kastandi drasli í það. Þetta er ekki siðmenntað stjórnarfar. Þetta er eins og einhverskonar geðveikrahæli."
Bergþór gerir athugasemd við þetta orðalag. „Ég held að það væri ráð að allir sem ekki þekkja til geðsjúkdóma, en þurfa að tjá sig um það, myndu gefa sér tíma til að fræðast áður en orðin eru látin falla."
